Þversund Zenos

Það er mjög mikilvægt að blekkja sjálfan sig reglulega. Stundum fer ég í sund og syndi ég þá oftast kílómeter. En aðalfyrirstaða mín í þeim efnum er hversu óskaplegan tíma það tekur (~25 mín). Til að synda slíka vegalengd í Vesturbæjarlaug, þarf að fara 40 ferðir. Það er stór tala til að halda utan um í skyndiminninu og í hita leiksins verður mér oft á að ruglast í talningunni. Reyndar er ljóst að ferðin til baka er alltaf slétt tala, svo maður getur einhvernveginn leiðrétt sig á því en samt er það ekki fullkomið.

Til að komast í kringum þetta hef ég brugðið á það ráð að telja frekar hringina sem ég syndi: 20. Þetta er prýðistala til að halda utan um og helmingi minni líkur á ruglingi. Hinsvegar virkar það letjandi á mig eftir t.d. 16 hringi að halda áfram. 16 er nefnilega miklu nær 20 heldur en 8 til dæmis og því líklegra að maður hætti þá fyrr til að spara sér 5 mínútur eða svo. Til að ráða bót á þessu öllu bætti ég talninga-tækni mína enn betur, eftir að hafa kynnt mér Þversögn Zenos, sem í einhverri útgáfu sinni byggir á að taka skref, síðan helming þess skrefs og taka alltaf helmingi minni skref þangað til maður hefur tekið 2 skref (sem er eftir óendanlegan fjölda skrefa). Í þversögnina hefur svo verið blandað skjaldbökum, Akkílesi, örvum og fleiru.

Lausnin felst semsagt í því að stinga sér til sunds og synda bara 8 hringi. Eftir þessa 8 hringi ímyndar maður sér að maður sé byrjaður upp á nýtt. Byrjar að telja frá einum aftur og tekur aðra 8 hringi. Þegar þar er komið við sögu eru einungis 4 hringir eftir, sem verða að teljast sárafáir og löðurmannlegir eftir það sem á undan hefur gengið. Voilà! 20 hringir og manni líður eins og maður sé nýkominn ofan í laug. Þá getur maður farið í heitu pottana með góðri samvisku og hlustað á umræður um nanó-tækni, rasisma og maraþonhlaup.

PS. Þeir sem vilja geta tekið þversögnina lengra og talið 8, 4, 2, 1 og svo annaðhvort svindlað og synt einn hring í viðbót, eða haldið áfram í 1/2, 1/4, 1/8 …