(13 + 2i) furðulegar ástæður fyrir því að þetta sé sennilega kjaftæði

Á vefmiðlum, innlendum sem erlendum, eru endalaust magn svokallaðra „link-bait“ frétta, eða „veiði-hlekkja“ eins og það gæti verið þýtt á íslensku. Þessar greinar eru oftar en ekki gjörsamlega innihaldslausar upptalningar á því sem kemur upp þegar þú gúglar viðkomandi viðfangsefni. Þá fjalla þessar greinar um hvernig maður kemur sér í betra form, samsæriskenningar (* things you did not know about …) eða bara hvað sem er.

Það sem stingur mig mest er hvaða tölur eru notaðar. Fyrir nokkrum árum sá ég þetta í fyrsta skipti, á vef-ritinu Mashable (Stappanlegt) og veitti því þá eftirtekt að fyrir einhverja ótrúlega tilviljun voru hlutirnir sem taldir voru upp alltaf af prímtölufjölda (3, 5, 7, 11, 13, 17 …). Síðan þá hefur þetta breyst í einhverskonar tísku. Ritstjórar vef- og fjölmiðla virðast háðir þessum föstum í fyrirsagnir sínar. Ég þekki þónokkuð mikið af fólki sem hefur dágóðan vott af áráttuhegðun á þá leið að það getur ekki með nokkru móti stillt sjónvarp eða útvarp nema á slétttölu-hljóðstyrk (2, 4, 6 …). Því má vissulega ímynda sér afhverju prímtölurnar eru orðnar svona mikið notaðar, því þær fara í taugarnar á þessum hópi fólks og láta það frekar veita þeim athygli.

Þetta er gengið svo langt að þegar ég sé síðan grein með upptalningu á 4, 6, 8, 10, eða 12 hlutum fer ég strax að stórefast um sanngildi hennar! Venjan er að það séu alltaf prímtölur og þær því orðnar einhverskonar auðkenning á að hér sé um að ræða áreiðanlega og trausta heimild fyrir því að ég þarf bara að gera 7 hluti (ekki 6 eða 8) til að fá flatan maga. 12 spora kerfið hefur misst marks og víkur fyrir 11 spora kerfinu, tvíkostadreifing Bernoullis er orðin að þríkostadreifingu og sólarhringurinn orðinn 23 stundir og það er 61 mínúta í klukkustund.

Með ofnotkun prímtalna á þennan hátt munum við brátt verða ónæm fyrir þeim. Við hættum að trúa að þessir 11 hlutir sem við vissum ekki um ísskápa séu í raun sannir. En hvað er þá til bragðs að taka fyrir ritstjóra vef-miðla, sem ólmir vilja að við smellum á sem flesta hlekki á síðum þeirra?

Mín tillaga er að fara bara yfir í næstu talna-veröld og fara að nota tvinntölur í staðinn. 

(Ath. að augljóst er að 2 er prímtala en þar sem það er frekar fátæklegt að vera með upptalningu á tveimur hlutum sleppi ég þeirri tölu úr þessari teoríu minni).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *